Reglur fyrir uppgöngu í Hlíðarfjalli

Uppganga fjallaskíðafólks innan Skíðasvæðiðsins í Hlíðarfjalli er einungis leyfileg eftir merktri leið.

Gætið þess að vera vel sýnileg. Gengið skal í einfaldri röð.

Verið meðvituð um umferð skíðamanna niður fjallið. Verið meðvituð að troðarar og vélsleðar á vegum Hlíðarfjalls geta verið á ferðinni allan sólarhringinn.

Uppgönguleiðin byrjar við 4x4 bílastæðið norðvestan við Skíðahótel. Leiðin liggur norðanmegin við snjógirðingar í Rennsli síðan norðanmegin við Strýtuskála og upp nyrst í Norðurbakka. Uppganga fjallaskíðafólks er ekki heimil um aðrar leiðir innan Skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli sem lýkur við endamörk Stromplyftu.

Uppgöngufólk skal við Strýtu gera prófun á snjóflóðaýli og glöggva sig á snjóflóðahættumati. Ef troðari er að vinna á efrasvæði er uppganga ekki heimil áfram vegna spilvírs sem gæti leynst í snjó. Viðvörunarmerki eru sett upp á Strýtuplani. Ef þið eruð að koma niður á efra svæðið eftir lokun þá verðið þið að glöggva ykkur á því hvort troðari sé að vinna því þá getur leynst spilvír í snjónum. Þetta á við um allt efra svæðið.

Ekki er leyfilegt að þvera skíðabrautir í uppgöngu á opnunartíma Hlíðarfjalls. Allir þeir sem leggja á fjallið skulu hafa meðferðis lágmarksöryggisbúnað til ferða í fjallendi á vetrartíma.

Við hvetjum fjallaskíðafólk til þess að hafa meðferðis snjóflóðaýli, stöng og skóflu. Við bendum uppgöngufólki sem hyggur á lengri ferðir að skrá sín ferðalög á Safetravel. Við bendum á 112 appið í farsíma þar sem hægt er að skrá gps punkta og hringja á hjálp í gegnum appið sem þá gefur upp staðsetningu þess sem hringir.

Við minnum á að lausaganga hunda er bönnuð á svæðinu.

Brot á reglum um uppgöngu innan skíðasvæðis getur varðað brottvísun.