Nýja stólalyftan ræst á morgun, laugardaginn 19. febrúar kl. 13

Óskar Wild Ingólfsson
Óskar Wild Ingólfsson

Nýja stólalyftan í Hlíðarfjalli verður gangsett um helgina og ræst kl. 13 á morgun, laugardaginn 19. febrúar. Lyftan verður síðan í gangi á opnunartíma skíðasvæðisins næstu daga en ráðgert er að formleg vígsluathöfn verði haldin síðar.

Á morgun er spáð köldu en björtu hægviðri og verður lyftan því gangsett við kjöraðstæður í Fjallinu. Mikil eftirvænting er á meðal skíðafólks og má búast við að þónokkur biðröð myndist við nýju lyftuna enda margt fólk komið norður til að njóta útiveru og skíðamennsku á meðan vetrarfrí eru í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu.

Lengd nýju lyftunnar er 1.160 metrar og fallhæð 374 metrar. Lyftan ber 1.650 manns á klukkustund og tekur um 8 mínútur að komast á leiðaranda.

Lyftan er framleidd af Doppelmayr, var keypt notuð frá Austurríki og sett upp af fyrirtækinu Pro-Alpin sem sérhæfir sig í kaupum og sölu á notuðum lyftum. Stór hluti búnaðarins í lyftunni hefur verið endurnýjaður, þ.á m. tölvustýring hennar sem er flunkuný og er allur stjórnbúnaður eins og um nýja lyftu væri að ræða. Öll lyftumöstur eru með sérstökum nemum sem sýna í rauntíma hvernig allur búnaður virkar.

Vegna aðstæðna og mikils bratta svo hátt í fjallinu, verður lyftan eingöngu notuð þegar skyggni er gott og snjóflóðahætta í lágmarki.