Í ár var áttunda árið með sumaropnun í Hlíðarfjalli þar sem gestir gátu nýtt sér Fjarkann, neðri stólalyftuna okkar, til að koma sér upp fjallið til að njóta þess að hjóla eða ganga á svæðinu. Það var lögð mikil vinna í hjólagarðinn í sumar og fullt af nýjungum sem bættust við þar ásamt viðhaldi á gömlum leiðum. Opnunartíma var breytt frá síðustu árum þar sem í ár var opið á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum en auk þess voru þrjár helgar með opnun frá fimmtudegi til sunnudags. Þessi nýji opnunartími virtist ganga mjög vel og voru langflestir dagar vel nýttir. Opnunardagar voru 32 og gestafjöldi fór yfir 1500 manns sem gerir þetta að þriðja besta sumrinu okkar frá upphafi og meira en tvöföldun frá því í fyrra.
Samhliða sumaropnuninni hefur verið unnið hörðum höndum í fjallinu. Nú þegar hefur rúmlega hálfur kílómetri af nýjum snjógirðingum risið ásamt endurbætum á gömlum snjógirðingum um allt svæðið og einnig hefur farið fram umfangsmikið viðhald á öllum lyftum og tækjum. Meðfram þessu öllu hefur nýja verkstæðið okkar verið að mjakast áfram og teljum við niður dagana þar til við fáum að flytja þangað inn. Framundan er nóg af verkefnum þar til snjórinn fer að falla, áframhaldandi snjógirðingavinna, uppfærsla á snjóframleiðslukerfi, endurnýjun á lýsingu heldur áfram og svo auðvitað flutningar þegar þar að kemur. Það verður því ekki setið auðum höndum frekar en áður þetta haustið.
Við viljum þakka öllum sem heimsóttu okkur í fjallinu í sumar og hlökkum að sjálfsögðu til að taka á móti ykkur í vetur :)