Góðan daginn skíðafólk og vetrarunnendur ⛷️🏂
Síðastliðna mánuði hefur starfsfólk unnið hörðum höndum við að undirbúa vetraropnun og stefnan verið sett á opnun föstudaginn 15. desember eða fyrr ef aðstæður leyfa. Því miður hefur vetur konungur látið lítið á sér bera og þrátt fyrir kulda, er ljóst að töluvert meiri snjó þarf til þess að opna fjallið. Eftir að hafa farið vandlega yfir aðstæður og horfur næstu daga þá sjáum við okkur ekki annað fært en að seinka opnun um viku, eða til föstudagsins 22.desember. Með þessu vonumst við til þess að geta framleitt meiri snjó og að sjálfsögðu að náttúran vinni með okkur og við fáum hvíta gullið sem fyrst í fjallið ❄️
Fyrir þá sem eiga eftir að kaupa sér kort, þá viljum við benda á að forsala vetrarkorta hefur verið framlengd til 5.janúar og er nú í fullum gangi. Afgreiðslan verður opin fyrir sölu vetrarkorta á föstudaginn frá 10:00-16:00, laugardag frá 10:00-12:30 og alla næstu viku 16:00-19:00. Spenntum skíðagestum er því velkomið að koma og undirbúa sín kort fyrir veturinn og þar með verið tilbúin í brekkurnar um leið og opnar.
Gönguskíðasvæðið verður áfram opið eins og aðstæður leyfa, en þar hafa aðstæður undanfarið verið góðar og fjöldi fólks nýtt sér það. Bendum fólki á að fylgjast nánar með opnun gönguskíðabrauta á heimasíðu Hlíðarfjalls.
Nánar um aðstæður í fjallinu. Í dag er hiti á svæðinu og veðurspá breytileg næstu daga. Útlit er fyrir kulda aftur um helgina. Snjóframleiðsla hefur gengið vel síðustu vikur og hver klukkutími nýttur í frostinu til framleiðslu. Það mun áfram vera í forgangi og við klár í að hefja snjóframleiðslu aftur af fullum krafti, um leið og frost er nægt. Starfsfólk Hlíðarfjalls heldur áfram að meta aðstæður dag frá degi með því markmiði að opna sem fyrst. Allt verður gert til þess að vinna aðstæður eins vel og okkur er fært og verða öll tækifæri nýtt til að festa meiri snjó í fjallinu. Staðan er einfaldlega sú að snjókoma í fjallinu hefur verið óvenjulega lítil undanfarið og samkvæmt veðurfræðingum hefur úrkoma á Akureyrasvæðinu síðastliðinn mánuð aðeins verið um 40% af því sem venjulega er á þessum árstíma.
Þrátt fyrir þessi tíðindi þá er skíðasvæðið vel undirbúið í frábæran skíðavetur og ekki þarf mikið til að þetta smelli hjá okkur. Við höldum því áfram að vera bjartsýn og hvetjum alla til að stíga snjódansinn með okkur fram að því 💃🏼
Góðar kveðjur og sjáumst brátt í brekkunum 🤠🙌🏻