TAKK FYRIR VETURINN 2024/2025

Síðastliðinn laugardag lauk formlegri opnun fjallsins þennan veturinn þegar lokadagur Andrésar Andarleikanna fór fram.
 
Það verður ekki annað sagt en að þessi vetur hafi reynst okkur erfiður með litlum snjó og erfiðu veðri. Við náðum ekki að opna fyrr en 4. janúar sem er ansi seint fyrir okkar smekk, en þar spilaði snjóframleiðslan lykilhlutverk og hefur aldrei verið framleitt jafn marga daga í Hlíðarfalli og í ár. Í gegnum veturinn komu svo ansi margir leiðinda hlákukaflar sem kölluðu á allskyns ný ráð í snjósöfnun til að halda svæðinu opnu, þar sannaði SnowSat snjómælingarkerfið í troðurunum okkar sig heldur betur.
 
En það voru líka frábærir dagar þar sem allir ljómuðu af gleði í fjallinu og lokavikurnar hjá okkur voru alveg frábærar. Páskarnir voru algjört æði þar sem við fengum smá snjósendingu á háréttum tíma og svo lék veðrið við okkur. Lokahnykkurinn var svo auðvitað þegar Andrésar Andarleikarnir fóru fram og eins og alltaf svo frábært að sjá alla flottu krakkana í fjallinu en þar var enn eitt árið met þátttaka með um 930 keppendum.
 
Þrátt fyrir erfiðar aðstæður þá náðum við 85 opnunardögum á skíðasvæðinu auk nokkurra auka æfingadaga og gestafjöldi náði tæplega 63 þúsund.
 
Við treystum á að veðurguðirnir standi betur með okkur næsta vetur og hlökkum til að taka á móti ykkur öllum í Hlíðarfjalli veturinn 2025/2026.
 
Takk fyrir okkur <3