Vetur kemur og vetur fer...

Jólagjöf Hlíðarfjalls þetta árið var ekki kræsileg, en óveðrið sem gekk yfir með gríðarlegu roki og hita setti skíðasvæðið nánast aftur á byrjunarreit. Snjór hefur beinlínis horfið úr brekkum og sumar hverjar orðnar nánast auðar aftur, sama má segja um skíðagöngusvæðið. Hitinn hefur varla náð undir frostmark síðustu daga og vindur hefur haldist býsna sterkur áfram og því engar aðstæður til að hrófla við þeim litla snjó sem eftir er.
 
Það er ljóst að við náum ekki að opna svæðið þar til við náum að framleiða snjó eða fáum nýja náttúrulega sendingu. Hátíðaskíðunin þetta árið verður því ekki merkileg sem er grátlegt eftir að hafa verið með alveg frábærar aðstæður á svæðinu fyrir bara viku síðan.
 
Ljósi punkturinn er þó að á gamlársdag snýr spáin sér loksins okkur í hag þar sem mikið frost virðist vera á leiðinni sem við hyggjumst nýta til fulls að framleiða snjó. Starfsfólk okkar er klárt að standa vaktina allan sólarhringinn svo lengi sem frostið helst hjá okkur og reyna að fylla fjallið af snjó aftur. Við vonumst því til að geta opnað sem allra fyrst á nýju ári !